Um drómasýki

Einkenni og birtingarmyndir

Einkenni drómasýki eru fimm:

 

Yfirþyrmandi dagsyfja (e. excessive daytime sleepiness/EDS)

Yfirþyrmandi dagsyfja eða svefnþörf (oft lýst sem "svefnkast") getur komið hvenær sem er yfir daginn og í öllum aðstæðum, jafnvel óviðeigandi aðstæðum og kyrrsetu, þar á meðal við matarborðið. Svefnköstin koma síendurtekið yfir daginn og geta varið í 5-15 sekúndur, en getur einnig birst sem viðvarandi og undirliggjandi þreyta í allt að klukkustund. Viðkomandi getur ekki stjórnað svefnköstunum, en hressist mjög þótt blundurinn sé ekki nema nokkra mínútu langur.

 

Röskun á nætursvefni (e. disturbed nighttime sleep, DNS)

Röskun á nætursvefni er þegar viðkomandi vaknar síendurtekið yfir nóttina og fær því ekki nægan djúpsvefn.  Svefnmynstrið er óreglulegt, og í stað þess að fara í djúpsvefn, sem nýtist til hvíldar og endurnýjunar á frumum líkamans, þá fara einstaklingar með drómasýki beint í REM-svefn eða draumsvefn og stoppa mun styttra við í djúpsvefni en talið er eðilegt.

Þetta kemur í veg fyrir fullkomna næturhvíld og sá einstaklingur finnur því jafnvel fyrir þreytu þegar farið er á fætur eftir heila nótt í rúminu. Svefnskortur veldur þeirri óstjórnlegu þreytu sem flestir með drómasýki glíma við á hverjum degi. 

Talið er að um 30-95% af fólki sem hefur verið greint með drómasýki þjáist af röskun á nætursvefni sem ekki er rakin til annarra sjúkdóma (niðurstöður eru þó mismunandi eftir mælitækjum).

Mikilvægt er að hafa í huga að svefn er okkur nauðsynlegur til að halda líkamlegri og andlegri heilsu. Svefntruflanir hafa áhrif á úrvinnslu upplýsinga, nám og minni, og gerir fólki enn erfiðara fyrir fólk að aðlagast umhverfi sínu, takast á við daglegt líf, hafa áhuga á að koma hlutum í verk og að takast á við streitu.

Þegar við sofum illa getum við orðið hvatvís, uppstökk, skapstygg og jafnvel tekið óæskilegar ákvarðanir.

 

Kataplexía (e. cataplexy)

Kataplexía er sérstakt ástand lömunar þar sem vöðvar missa mátt að hluta til eða í heild sinni. Þeim er oft lýst sem einskonar máttleysis- eða lömunarköst en viðkomandi er með fulla með vitund á meðan köstunum stendur. Talið er að u.þ.b. 60-90% einstaklinga með drómasýki þjáist af kataplexíu og er sú birtingarmynd kölluð drómasýki týpa 1 en drómasýki týpa 2 er án kataplexíu.

Kataplexíuköstin eru þess eðlis að erfitt er fyrir sérfræðinga að verða vitni að kataplexíuköstum á rannsóknarstofu eða í læknaviðtölum, en myndbandsupptökur geta gefið þeim einhverja hugmynd um hvert birtingarform kastanna er.

Kataplexíuköst koma oftast fram við tilfinningalegt áreiti. Það er einkum jákvæð geðshræring og tilfinningar, t.d. hlátur en þá er það oft hápunktur skemmtisögunnar (e. punchline) sem er kveikjan að kastinu. Einnig getur það að eitthvað komi ánægjulega á óvart verið kveikja en köstin eru líklegri í rólegu umhverfi með fjölskyldu og vinum. Kataplexíuköst geta þó einnig komið til við vægari neikvæðar tilfinningar, til dæmis reiði eða gremju, í sumum tilvikum í stressandi aðstæðum og jafnvel þegar aðstæður eru sambland af ofangeindu í bland við óvenju mikið áreiti í umhverfinu.

Þýðingarmiklar neikvæðar tilfinningar eru hins vegar sjaldan kveikja fyrir kataplexíukast og það á einnig við um t.d. ofsareiði í umferðinni. Ein ástæða þess gæti verið örvun taugakerfisins samhliða aukningu á adrenalíni.

Birtingarmyndir kataplexíu eru afar mismunandi. Væg köst geta verið máttleysi í andlitsvöðvum og hálsi sem geta valdið óskýru tali, hnykkjum í höfði og kippum í andliti. Þá geta hendur líka orðið máttlausar, t.d. ef haldið er á glasi þá geta hendur sigið örlítið niður eða viðkomandi missir hluti í gólfið. Í undantekningartilfellum eru vægu köstin einungis öðru megin í líkamanum. 

Alvarlegri köst geta tekið allt að 10 sekúndur. Viðkomandi getur þá misst allan mátt í vöðvum stoðkerfisins þannig að hann fellur í gólfið. Þótt kastið sjálft taki stutta stund getur viðkomandi þurft lengri tíma til að jafna sig og verið í nokkrar mínútur að ná fullum styrk aftur. Við kataplexíukast er einstaklingurinn með fulla meðvitund og skynjun en við lengri köst gæti viðkomandi upplifað eins konar draumainnskot eða að viðkomandi sé aftengdur. Í sumum tilvikum geta köstin verið misskilin og talin vera flogakast eða merki um heilablóðfall. 

Óviðráðanleg vöðvalömun getur haft mjög hamlandi áhrif á líf fólks. Óttinn við að hrynja niður og/eða slasast við fallið getur meðal annars leitt til félagslegrar einangrunar og annarra félagslegra vandamála, þetta á sérstaklega við um ung börn með drómasýki.

Þess má geta að fólk sem þjáist ekki af drómasýki upplifir oft máttleysi við mikinn hlátur, en óvíst er hvort það sé á einhvern hátt tengt slekjuköstum drómasýkinnar.

 

Svefnlömun (e. sleep paralysis)

Svefnlömun eða svefnrofalömun er ástand þar sem einstaklingur verður meðvitaður um sjálfan sig á sama tíma og hann er í ákveðnu lömunarástandi sem af náttúrulegum ástæðum framkallast í REM-svefni. Hlutverk svefnlömunar er mögulega að koma í veg fyrir hreyfingar á meðan draumsvefni stendur. Þótt stærri vöðvar líkamans séu lamaðir þá er samt sem áður mögulegt að hreyfa augun. 

Þessi lömun er í raun eðlileg en við erum hins vegar ekki vön að vakna í þessu ástandi og það getur vakið hræðslu. Í þessu ástandi reyna margir að hreyfa sig og kalla á hjálp en geta það ekki. Mörgum finnst sem einhver liggi ofan á þeim og þrýsti þeim ofan í rúmdýnuna og eiga þá jafnvel erfitt um andardrátt. 

Aðrir upplifa þessa tilfinningu en hræðast hana ekki. Þá sérstaklega fólk sem er vant þessari upplifun og er meðvitað um hvað er að gerast.
Upplifunin er ekki eingöngu bundin við drómasýki og margt fólk upplifir þessa tilfinningu einhvern tímann á ævinni.
-
Eins og talað er um hér fyrir ofan er svefnlömun náttúrlegt ástand sem við förum öll í gegnum á meðan við erum sofandi. Það virðist vera að kataplexía sé þetta sama ástand að koma fram á röngum tímum, eða þegar við erum vakandi.  (skyringarmynd)

 

Svefnhöfgaofskynjanir (e. hypnagogic hallucinations/waking hallucinations)

Svefnhöfgaofskynjanir eru oft fylgifiskar svefnlömunnar, en það eru upplifanir sem eiga sér stað við svefnrof eða þegar draumsvefn breytist í vöku eða öfugt.
Ofskynjanir eru oftast mjög skýrar (e. vivid) og líkjast draumum, enda má segja að svefnhöfgaofskynjanir séu eins konar draumar sem ráðast inn í huga okkar við svefnrof. 

Dæmi um ofskynjanir eru þegar viðkomandi liggur upp í rúmi og upplifir að allt í einu er fullt af fólki frammi í stofu og heyrir í þeim spjalla saman, að dyrabjallan hringi eða jafnvel að það rigni úr herbergisloftinu. Viðkomandi áttar sig á því að upplifunin var ofskynjun þegar hann vaknar.

Allt að 90% ofskynjana tengdar svefnlömun vekja hræðslu en það gera aðeins 30% drauma. 

Það eru ekki aðeins einstaklingar með drómasýki sem upplifa svefnlömun eða svefnhöfgaofskynjanir heldur getur fólk almennt lent í þessum aðstæðum og margar ástæður legið að baki. Fólk með drómasýki er þó líklegra til að upplifa það oftar en aðrir.

Önnur einkenni drómasýki

Draumar

Draumar eru ekki eitt af klínískum greiningarviðmiðum drómasýki en geta þó gefið mikilvægar vísbendingar þar sem svefnmynstur fólks með drómasýki er frábrugðið hefðbundnu svefnmynstri. 

Í rannsókn sem var gerð árið 2014 um ranghugmyndir út frá draumum einstaklinga með drómasýki, kom rannsakendum á óvart hversu mikill fjöldi einstaklinga með drómasýki taldi draumaupplifanir vera raunverulegar og hversu alvarlegar ranghugmyndirnar voru. Þá kom í ljós að 83% þátttakenda með drómasýki hafa upplifað ranghugmyndir en aðeins 15% einstaklinga sem voru ekki með drómasýki.

Einn viðmælandi rannsóknarinnar sagðist hafa dreymt að ættingi hafði látist og upplifunin var svo raunveruleg að hann hafði samband við útfararstofu til að ganga frá þeim málum áður en hann uppgötvaði að um draum var að ræða. 

Alvarlegar ranghugmyndir af þessu tagi eru ekki óalgengar hjá einstaklingum með drómasýki og geta varað í daga eða vikur en oftast leiðréttast þær á fyrstu mínútum vöku.
Rannsakendur taka fram að niðurstöðurnar haldast í hendur við aðrar rannsóknir þar sem einstaklingar með drómasýki upplifa drauma mun skýrar en almenningur, finna meiri tilfinningar við draumana og muna betur drauma en samanburðarhópurinn. 

Þeir velta því fyrir sér hvort að þessar ranghugmyndir geti verið vegna þess hve raunverulegir draumarnir eru, hvað veldur þessum ranghugmyndum og hvort um sé að ræða einhvers konar brenglun í minni.

 

Þyngdaraukning

Þyngdaraukning er ekki greiningarviðmið drómasýki en getur verið óbein afleiðing þess að vera með sjúkdóminn. Efnaskipti okkar stjórnast að miklu leyti af svefni og líkamsklukkunni. Óreglulegur eða of lítill svefn, kæfisvefn og vaktavinna geta haft áhrif á meltingarkerfið og óreglu í efnaskiptum. Bólgur geta þá myndast í líkamanum ásamt ójafnvægi í orkubúskap, insúlíni og glúkósa. Í kjölfarið er aukin hætta á þyngdaraukningu, offitu og sykursýki týpu tvö ef ekkert er gert til að koma betri reglu á svefninn.

Rannsóknir hafa sýnt að fólk með drómasýki er með hærri líkamsmassastuðul (e. body mass index/BMI) samanborið við almenning og oftar en ekki greinir fólk með drómasýki frá ofáti sem á sér stað á nóttunni. Möguleg ástæða þess að einstaklingar með drómasýki borða oft á nóttunni tengist framleiðslu á efninu orexín, og getur mögulega stuðlað að þyngdaraukningu þar sem það stjórnar að einhverju leyti matarlyst og líkamsþyngd. 

 

Vandamál við nám og vinnu

Svefnköst geta haft veruleg áhrif á nám. Líkur eru á því að sá sem er með drómasýki sofni í kennslutímum, við verkefnavinnu eða á fyrirlestrum án þess að aðrir veiti því eftirtekt. Þegar á reynir er hætt við því að viðkomandi muni ekki efni námsefnisins. Þetta getur verið mistúlkað sem athyglisvandamál, einbeitingarskortur, leti, áhugaleysi og jafnvel þunglyndi.  Verkefnaskil geta verið vandamál því jafnvel þótt einstaklingur hafi fullan vilja og áhuga á að skila verkefnum á réttum tíma, koma svefnköst og svefnleysi oft í veg fyrir einbeitingu við úrlausn verkefnanna. Mikilvægt er að aðstandendur og kennarar séu meðvitaðir um ástandið og bregðist ekki illa við svefnköstum eða minnisleysi. Mikilvægt er að gefa svigrúm til að vinna utan hefðbundinnar stundatöflu eða vinnutíma þegar viðkomandi finnst hann vera með athygli, sem er ekki endilega alltaf á vinnu- eða skólatíma. Nemendur með drómasýki hafa fengið sérúrræði sem gagnast vel.  Til dæmis með því að taka upp kennslustundir, gefa lengri próftíma og fleira. Fjarnám hentar fullorðnum einstaklingum sérstaklega vel vegna þess sveigjanleika sem það býður upp á.

 

Daglegt líf

Mikið álag felst í því að standast samfélagslegar kröfur. Að mæta í vinnu eftir svefnlausa nótt getur verið erfitt og ekki síður að halda sér vakandi á vinnutíma. Sumir geta ekki unnið vegna sjúkdómsins og þurfa á félagslegum og fjárhagslegum stuðningi að halda. Fjölskyldu- og heimilislíf getur raskast verulega og finna margir sjúklingar til sektarkenndar vegna þess hve takmarkaður sá tími er sem þeir geta veitt fjölskyldu sinni.
Slekjuköst koma oft fram við sterkar tilfinningar og það getur verið niðurlægjandi fyrir viðkomandi að hella niður, missa hluti, eða falla í gólfið í kjölfar mikilla tilfinninga. Þetta kapphlaup við tímann og tilfinningar getur haft áhrif á sjálfstraust fólks. Einnig getur reynst erfitt að vera á meðal fólks eða halda sambandi við aðra því hræðsla við gagnrýni og áreiti frá öðrum getur verið letjandi.

 

Gott líf með drómasýki

Fólk með drómasýki getur lifað eðlilegu og góðu lífi því vandamálin sem fylgja eru ekki óyfirstíganleg. Til eru ýmsar meðferðir og leiðir til að vinna með drómasýki og flestir ná að stunda sína vinnu og áhugamál án mikilla vandamála. Stuðningur, skilningur og þolinmæði annarra er það sem skiptir mestu máli, sérstaklega frá maka, foreldrum barna með drómasýki og kennurum eða samstarfsfólki.

 

Börn með drómasýki

Börn og unglingar sem byrja að upplifa einkenni drómasýki eru oft og tíðum greind með þunglyndi, persónuleikaröskun, hugsýki eða aðlögunarröskun. Algengust er þó ADHD- greining (athyglisbrestur með ofvirkni). Ein leið til að halda sér vakandi er að vera stanslaust á ferðinni og getur það verið mistúlkað sem ofvirkni. Þetta kemur til vegna þess að börnin eiga erfitt með að útskýra hvernig þeim líður og foreldrar, kennarar eða heilbrigðisstarfsfólk eiga erfitt með að skilja hvað þau eru að upplifa. Líkur eru á að börn og unglingar þori ekki að nefna ofskynjanir vegna hræðslu við að vera álitin geðveik.Í mörgum tilvikum eru það kennarar í skólum sem átta sig á svefnvandamálinu þegar börnin eru komin á skólaaldur. Einnig er algengt að foreldrar vilji vernda börnin sín fyrir aðstæðum sem til dæmis valda kataplexíuköstum og mögulegum meiðslum við að falla í gólfið. Sumum börnum finnst foreldrar viðhafa of mikla stjórn og eiga erfitt með að fá rými til að þróa eigið sjálfstæði. Þetta getur ýtt undir erfiðleika með aðskilnað við foreldra sem er hluti af þroskaferli barna á þeim aldri sem einkenni drómasýki eru að koma fram. 

 

Orsök

Ekki er vitað með neinni vissu hvað verður til þess að einstaklingar þróa með sér drómasýki. Talið er að ein möguleg ástæða sjúkdómsins tengist skemmdum á taugum sem framleiða órexín/hýpókretín, mögulega vegna sjálfsofnæmisviðbragða.

Önnur mögulega ástæða eru ytri áhættuþættir eins og bóluefnið Pandemrix sem er talið geta stuðlað að þróun sjúkdómsins ásamt arfbundnum þáttum, þá sérstaklega hjá fólki með genasamsætuna HLA-DQB1*0602.

Fólk getur einnig fengið drómasýki í kjölfar veikinda eða slyss, þar sem skemmd verður á ákveðnum svæðum í heilanum.

Vísbendingar eru einnig um að H1N1 veiran sjálf geti valdið drómasýki, án tengingar við bóluefnið sem og ytri áhættuþættir, t.d. árstíðir þar sem líklegra er að skæðar pestir ganga.

Órexín/Hýpókretín hafa margþætt hlutverk er varða fínstillingu á ferlum líkamans. Þegar ójafnvægi ríkir í þessum ferlum hefur það áhrif á svefnhringinn og efnaskipti líkamans og veldur þannig tilheyrandi einkennum.

Sjúkdómseinkenni orsakast helst af truflun á svefni og vöku, en talið er að vegna skorts á órexíni raskast svefnhringurinn og í kjölfarið koma fram ýmis vandamáli. Í stuttu mál má segja að vegna vöntunar á órexín efninu í heila, geti einstaklingur með drómasýki ekki verið vakandi né sofandi í meira en nokkrar klukkustundir í einu. 

Greiningar

Fyrstu einkenni drómasýki koma oftast fram á bilinu 12-14 ára. Einkenni geta komið fram fyrr, en í einni rannsókn í Sviss kom fram að 8% barna með drómasýki fengu einkenni fyrir 10 ára aldur og 8% einstaklinga fengu einkenni eftir fertugt. Aldurinn virðist vera mismunandi eftir löndum en ekki eru til gögn sem segja til um tíðni þeirra sem hafa fengið einkenni á efri árum.

Það er engin ein rétt leið til að fara þegar leitað er að svörum vegna einkenna drómasýki. Margir fara fyrst til heimilislæknis á meðan aðrir fara beint til taugasérfræðings.

Það getur tekið langan tíma fyrir einstaklinga með drómasýki að fá greiningu en rannsóknir hafa sýnt að það geti tekið allt að 2-60 ár.

Í Bretlandi er meðal greiningartími 10.5 ár, í Kína 16 ár og samkvæmt European Narcolepsy Network er hann 14.6 ár í Evrópu.  (MYND)

Þá er greiningartíminn vanalega lengri hjá konum en körlum.

Ýmsar ástæður liggja að baki þessari töf, líklegasta skýringin er takmörkuð þekking á margbreytilegum einkennum sem leiðir oft til þess að einstaklingar eru ranglega greindir áður en þeir fá loksins rétta greiningu með drómasýki.

 

Aðferðir til greiningar

Til að staðfesta greiningu þarf viðkomandi að fara í svefnrannsókn sem framkvæmd er að beiðni sérfræðings. 

Í svefnrannsókn eru gerðar tvær rannsóknir á sama tímabili, Svefnskráning (e.polysomnograph) yfir nótt og MSLT próf (e. multiple sleep latency test) sem er framkvæmd daginn eftir svefnskráninguna. 

Einnig er hægt að greina drómasýki með mænustungu.

Vefjaflokkagreining getur verið gagnleg í sumum tilvikum þar sem meirihluti einstaklinga með drómasýki hafa genasamsætuna HLA-DQB1*0602 sem finnst á litningi númer 6 í mönnum. ATH! Það þýðir ekki að allir með þessa genasamsætu séu með drómasýki.

 

Greiningar erfiðar

Greining getur verið erfið þar sem svefntruflanir geta stafað af hinum ýmsu ástæðum, til dæmis þreytu, streitu eða kaffidrykkju. Svefnskráning er gagnleg því hún sýnir skýrt svefn- mynstur viðkomandi sem hægt er að bera saman við eðlilegt svefnmynstur. MSLT prófið mælir hversu fljótt viðkomandi sofnar og hvaða svefnstig farið er í. Flestir með drómasýki fara beint í REM svefn, eða á 3-8 mínútum, á meðan það tekur heilbrigðan einstakling allt frá 20 mínútum til einnar klukkustundar að sofna.

Önnur ástæða þess að erfiðlega getur gengið að fá rétta greiningu er sú að einkenni drómasýki koma oft hægt í ljós, eiga það til að aukast hægt og eru oft mistúlkuð sem þunglyndi, leti eða áhugaleysi. Þetta getur valdið því að sjúklingarnir sjálfir verða jafnvel ekki alltaf varir við sjúkdóminn, þeir venjast einkennunum og aðlaga líf sitt þeim. Þegar þeir svo loksins leita læknis kvarta þeir venjulega undan þreytu eða því að þeir eigi í erfiðleikum með að halda sér vakandi. 

Önnur einkenni nefnir sjúklingurinn sjaldan þar sem hann setur þau ekki endilega í samband við þennan sjúkdóm. 

Dagsyfja getur átt sér aðrar ástæður og þar ber helst að nefna kæfisvefn og hrotur sem eru þó af allt öðrum orsökum.

 

Greiningarviðmið

Greiningarviðmið sem notast er við eru annaðhvort DSM-V eða ICSD-3. Þetta eru viðmið sem ber ekki alltaf saman, enda þróuð af sitthvorum hópnum. 

Einn virtasti læknir á svið drómasýki, Dr Thorpy, hefur gagnrýnt þetta ósamræmi og telur það valda misskilningi meðal annars í tengslum við algengisrannsóknir, tryggingar og það geti valdið röngum greiningum. Þá getur fólk fengið greiningu á drómasýki sem er ekki með drómasýki og ekki fengið greiningu á drómasýki þegar viðkomandi er sannarlega með hana.

DSM-5 var gefið út árið 2013 af American Psychiatric Association. Greiningarviðmið drómasýki er þriggja mánaða saga af mikilli óstjórnlegri þreytu þar sem einstaklingur sofnar endurtekið yfir daginn, að minnsta kosti þrisvar á dag. Einnig þarf að vera til staðar eitt af þremur einkennum; kataplexía að minnsta kosti nokkrum sinnum í mánuði, órexínskortur sem er þriðjungur eða minni af eðlilegum gildum eða að annað hvort REM-svefn mælist allt að 15 mínútur í PSG prófi eða að MSLT-próf mæli svefn á innan við 8 mínútum ásamt tveimur eða fleirum SOREMP.

ICSD3 var gefið út af American Academy of Sleep Medicine árið 2015. ICDS greiningarviðmiðin skipta drómasýki í aðskilda sjúkdóma, týpu eitt og týpu tvö. Greiningarviðmið drómasýki týpu eitt er mikil svefnþörf, með kataplexíu og tilheyrandi órexín/hýpókretínskorti eða að PGS og MSLT próf sé jákvætt. Týpa tvö er mikil svefnþörf án kataplexíu eða órexínskorts og er þar af leiðandi erfiðara að greina en þá er stuðst við niðurstöður svefnrannsóknar. Einnig þarf að ganga úr skugga um að einkenni séu ekki af völdum annarra svefnsjúkdóma, tauga- eða geðrænna vandamála. Í báðum tilvikum þarf PSG-próf að vera gert aðfaranótt MSLT-mælingar og þurfa prófin að sýna svefn á innan við átta mínútum og tvö eða fleiri SOREMP (Thorpy, 2016).

 

Drómasýki er ekki eina svefnröskunin sem veldur óstjórnlegri þreytu

Svefnraskanir eða hypersomnia, er yfirheiti yfir ýmsar svefraskanir, en drómasýki er í þessum flokki.  Aðrar tegundir af svefnsækni eru til dæmis kæfisvefn, sem er dæmi um öndunartengdar svefnraskanir. Þá er til svefnröskunin „primary sleep disorder“, IH eða „idiopathic hypersomnia“ (sem hefur enn ekki íslenskt nafn þótt sumir notist við orðið svefnsækni) og „Kleini-Levin syndrome“ sem oft er kallað Þyrnirósar-svefn. Einnig eru til aðrir svefnsjúkdómar með svipuð einkenni en orsakast af undirliggjandi sjúkdómum, lyfjanotkun, geðsjúkdómum eða svefnleysi.

Svefnrannsókn er því mikilvæg til að greina á milli þessara sjúkdóma.

Idiopathic Hypersomnia (IH) hefur verið greind á Íslandi þó þeir séu ekki margir, en þeir einstaklingar hafa fengið að vera verið meðlimir Lokbrá - félag fólks með drómasýki, þar sem um er að ræða svipaðan sjúkdóm.

Meðferðir

Þar sem drómasýki er varanlegur sjúkdómur felst meðferðin í því að halda einkennunum í skefjum svo að þau valdi eins lítilli skerðingu á lífsgæðum einstaklings og hægt er. 

Þær meðferðir sem eru í boði fyrir einstaklinga með drómasýki eru lyfjameðferðir, atferlismeðferðir og svo almennar lífsstílsbreytingar. 

Hér á landi eru lyfjameðferðir algengastar.
Örvandi lyf eru notuð til að halda þreytu og svefnköstum í skefjum og geðdeyfðarlyf eru notuð við kataplexíu, ofskynjunum og svefnlömun. 

Atferlismeðferðir (þá aðallega hugræn atferlismeðferð eða HAM) eru aðallega tvennskonar: Annarsvegar ganga þær út á að þekkja klínísku einkenni sjúkdómsins og lýsa síðan orsakaþáttum sem eru fyrirboðar eða hafa áhrif á einkennin, en hinsvegar að skoða tengsl óreglulegs REM-svefns og kataplexíu. Í nokkrum löndum er mælt með atferlismeðferð samhliða lyfjameðferð til að auka hæfni einstaklinga eins og hægt er á sama tíma og notaðir eru eins litlir lyfjaskammtar og mögulegt er að nota  

 

Aðrar meðferðir og lífsstílsbreytingar

Koffín getur haft mismunandi áhrif á fólk en í einhverjum tilfellum getur það hjálpað til við vöku ef kaffi er drukkið milli lyfjaskammta.  

Dáleiðsla hefur verið notuð við svefnhöfgaofskynjunum, en mælt er með að hún sé notuð samhliða öðrum meðferðum.

Matarræði er mikilvægur þáttur og rannsóknir hafa sýnt að kolvetnarík fæða getur haft áhrif á svefnmynstur og gæði svefns. Niðurstöður ýmissa rannsókna gefa til kynna að kolvetnarík fæða eins og hvítt hveiti, brauð, sykur, pasta, sælgæti o.s.frv. geti aukið dagsyfju hjá fólki almennt. 

Mælt er með reglulegri hreyfingu þar sem hún getur stuðlað að meiri styrk, úthaldi og bættri meltingu. Þessir þættir hjálpa til við að draga úr þreytu og bæta svefn einstaklinga. Einnig er mælt með að fólk takmarki áfengis- og tóbaksneyslu sem og neyslu örvandi drykkja, þá sérstaklega nokkrum klukkutímum fyrir svefn (Narcolepsy Network Group).

 

Drómasýki hefur ekkert með greind að gera!